jola 1500 02
04/11/2021

Á réttum tíma

„Er þetta ekki of snemmt?“ Þessa spurningu þekkjum við öll. Hún skýtur upp kollinum á hverju ári, venjulega um þetta leyti og kveikjan er ætíð sú sama: Smjörþefurinn af komandi jólahátið berst inn á heimili landsmanna í gegnum ljósvakamiðlana. Við klingjandi sleðabjölluhljóm er byrjað að kynna tónleika, hlaðborð, gjafir og gotterí, allt jóla-. Geitin stóra í Garðabænum er komin á sinn stað en ekki brunnin ennþá. Spurningin „er þetta ekki of snemmt?“ bergmálar um kaffistofur landsins og milli höfuðspjalda okkar allra.

„Jú, það finnst mér,“ segja sumir en „nei, ég hef bara gaman af þessu“ segja aðrir og bæta því við að þeirra vegna mætti tala um jólin allt árið um kring. Enn öðrum er alveg sama og eftir stendur að upphaflegu spurningunni er aldrei svarað. Og lesandi góður, ég þarf að hryggja þig með því að henni verður ekki svarað hér heldur, ekki frekar en annars staðar (spoiler alert).

Því þessi pistill fjallar nefnilega ekki um jólin, það er einfaldlega of snemmt að byrja að tala um þau. Eða hvað? Er það kannski ekki of snemmt? Er það nokkuð orðið of seint? Hvenær er rétti tíminn? Jólin eru stemningshátíð og við erum stemningsþjóð, sem þýðir að ef við hleypum hátíð ljóss og friðar of snemma af stokkunum gætum við misst áhugann áður en ilmurinn af heilögum Þorlák nær að festast í fötunum okkar. Betri er bið en bráðlæti, segir máltækið. En, ekki er ráð nema í tíma sé tekið, segir það sömuleiðis. Við megum ekki missa af jólalestinni. Hjálp.

Hvenær í Grýlu og Leppalúða má þá eiginlega að byrja að tala um jólin? Á réttum tíma, það er eina svarið. Þetta er eins og að segja brandara. Maður verður að henda pönslæninu út á réttum tíma, hvenær sem það eiginlega er.