faraldur
07/07/2022

Allt í samt lag eftir faraldur

Við höfum beðið spennt eftir allt komist í samt lag eftir faraldur. En heimurinn verður aldrei samur, við vitum það. Til að horfa á björtu hliðarnar er vert að nefna að við höfum tileinkað okkur eitt og annað jákvætt sem Covid-19 færði okkur. Þolinmæði var eitt af því, samanber að sætta okkur við ferðatakmarkanir, af því það væri svo gott fyrir umhverfið.

Núna, þegar við erum virkilega komin í stuð fyrir flugferðir, þá eru flugvellirnir það alls ekki. Á flugvöllunum þurfti að keyra allt í hægagang meðan á faraldrinum stóð og það tekur augljóslega mun lengri tíma að keyra afköstin þar á fullt skrið á ný en sem svarar ferðalöngun fólks. Og það eru ekki bara flugvellir sem þurfa vinnuafl, ferðaþjónustan öll sogar til sín fólk. Útþráin lætur þó ekki að sér hæða og mjög margir hafa löngu útvegað sér flugmiða, einn eða (miklu) fleiri enda ferðaþorstinn mikill. Enn lærum við af ástandinu, nú verðum við meistarar handfarangursins til að draga úr líkum á að dótið okkar týnist neðst í töskufjalli á erlendum flugvelli. Hvað um það, sumarleyfin eru hafin og það er dásamlegt að fara í frí og hlaða batteríin fyrir haustið og veturinn.

Á þessum óvissutímum, verðbólgu, ófriðar og loftslagsbreytinga er reyndar ekki gott að segja hvað haustið færir okkur. Það er ennþá langt til haustsins og bara eitt að gera; að njóta sólar meðan hún skín, hvort sem hún skín eða ekki. Ganga á fjöll, grilla og hitta fólk? Við erum bjartsýn að vanda og viljum koma fersk undan fríi, hvort sem við ferðumst innanlands eða utan. Okkar hagsmunir fara saman með hagsmunum viðskiptavina okkar. Við erum þess vegna ávallt fylgjandi því að versla innanlands og nota vörur og þjónustu sem fæst hér. Og hvernig er það, er ekki landið okkar alltaf best? Vonandi þó ekki ískalt? Hafið‘a gott í sumarfríinu og komið heil heim.