frettabladid
12/01/2023

Áramótabomba fyrir auglýsendur

Nýja árið tekur heldur betur á móti okkur auglýsinga- og markaðsfólki með tívolíbombu. Fréttablaðið er hætt dreifingu prentaðrar útgáfu í hús á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif þetta hefur á lestur blaðsins sem verið hefur einn öflugasti auglýsingamiðill landsins síðustu ár. Þó að lestur hafi minnkað hægt og rólega síðustu ár þá hefur blaðið verið ein sterkasta leiðin til að ná í stóran hóp fólks með stakri birtingu. Þetta skiptir sérstaklega máli þegar skilaboðin tengjast einhverju sem á sér stað samdægurs s.s. tilboð, opnun, viðburður eða þess háttar. Þó að prentuð útgáfa Fréttablaðsins verði vitanlega aðgengileg víðsvegar á fjölförnum stöðum er óljóst hvenær innan dagsins lesendur fletta blaðinu, mögulega erum við að horfa frekar til síðdegisblaðs en morgun-/dagblaðs. Stórir flokkar auglýsinga eins og atvinnuauglýsingar hafa einnig reitt sig á sterka dreifingu og lestur Fréttablaðsins. Ljóst er að fjármagn sem hefur leitað þangað er líklegt til að leita í aðra miðla. Okkar reynsla af prentuðum auglýsingum í Fréttablaðinu hefur verið mjög góð og skilað viðskiptavinum okkar miklum árangri.

Í framhaldi af þessum breytingum verður að teljast líklegt að áskrifendum Morgunblaðsins, amk í ákv. hópum, eigi eftir að fjölga.

Stóra spurningin er hvernig dagblaðalestur þróast eftir þessa breytingu og þar með hversu sterkur auglýsingamiðill Fréttablaðið verður. Allavega hef ég ekki séð Fréttablaðið á árinu (þó ekki sé hægt að miða allt við sjálfan sig). Hvert leitar það auglýsingafjármagn sem hefur farið í Fréttablaðið? Árið 2021 fóru um 773 milljónir kr. í birtingar í prentmiðlum hjá stóru birtingahúsunum, skv. Fjölmiðlanefnd, og má gera ráð fyrir að yfir 70% af því hafi farið til Fréttablaðsins.

Allavega þýðir þessi bomba hjá Fréttablaðinu miklar breytingar fyrir mörg fyrirtæki í landinu og þær leiðir sem þau fara til að ná til sinna markhópa.

Öfugt við það sem einhver gæti haldið hefur áskriftum heimila fjölgað undanfarin ár með breyttri notkun fjölmiðla, innlendra sem erlendra. Með þessari breytingu á dreifingu Fréttablaðsins minnkar lestur daglegs frímiðils. Sem betur fer hafa auglýsendur enn um marga sterka og útbreidda innlenda miðla að velja. Vonandi fækkar möguleikum auglýsenda ekki í þeim.

Gleðilegt nýtt ár og áfram Ísland!

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri