pipar 1500x750
13/01/2022

Bjartsýnin áfram

Árið 2021 var ár mikillar bjartsýni enda héldum við að sigur myndi nást í baráttunni við Covid-19 með víðtækri bólusetningu. Reyndar einkenndist árið líka af ýmsu öðru jafnt varkárni sem glæfragangi, einstakri þolinmæði en líka allmikilli óþolinmæði.

Enda er kyrrstaða ekki í boði, hvorki fyrir fyrirtækin né okkur sjálf. 2020 og 2021 kenndu okkur að vinna heima, kostina við það og gallana. Léttirinn varð mikill þegar grænt ljós kom á fulla mönnun á vinnustöðum, því auðvitað kemur ekkert í stað mannlegrar nándar. En ef við hugsum aðeins áfram um varkárni þá hafa mörg fyrirtæki haldið að sér höndum, beðið átekta hverju fram yndi. Og hafa þar með látið nægja að gera aðeins það nauðsynlegasta í markaðsmálum með lágmarkstilkostnaði vegna ástandsins á meðan önnur fyrirtæki hafa blómstrað sem aldrei fyrr og jafnvel notið sín sérstaklega vel – einmitt vegna árferðisins. Enn önnur hafa orðið mjög harkalega fyrir barðinu á afleiðingum pestarinnar.

Hjá okkur finnum við vel fyrir uppsafnaðri þörf hjá viðskiptavinum fyrir því að koma ýmsum verkefnum af stað sem hafa legið á ís í allnokkurn tíma. Þrátt fyrir allt svífur bæði áræðni og bjartsýni yfir á ný. Óttinn við sjúkdóminn hefur minnkað og það lítur út fyrir að meðvitund um að hjólin þurfi að halda áfram að snúast sé sífellt vaxandi.

Stafræna miðlunin hélt áfram á árinu og ekki við öðru að búast, við sáum nýja miðla vaxa og dafna og þar gildir dagleg endurmenntun, því þeir miðlarnir breytast hratt og aðferðirnar við að nýta þá vörumerkjum til framdráttar sömuleiðis. En það er nú einmitt einn af okkar styrkleikum hér á stofunni. Við kunnum vel að láta ljós vörumerkja skína á þeim stöðum sem neytandinn heldur sig hverju sinni, höfum til þess tæki, tól og síðast en ekki síst mannskap með mikla þekkingu og erum mjög vel meðvituð um mikilvægi þess að sú þekking endurnýist – daglega. Við hvetjum þig, lesandi góður til að smella á annálinn okkar til að líta á brot af því sem við vorum að sýsla við á liðnu ári. Gleðilegt ár!

Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri