Veturinn nálgast og fyrsti vetrardagur með kjötsúpu, góðravinafundum og októberfestum. Við sem vinnum við að byggja upp vörumerki höfum margt að sýsla en auðvitað eru blikur á lofti allt í kring. Þannig er það alltaf. Ferðabransinn, einn helsti undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, hefur þó blessunarlega glæðst dag frá degi og náð sér á strik með undraverðum hraða á þessu ári.
Frá Danmörku berast þær fréttir að Greenpeace þar vilji banna auglýsingar, t.d. flugferðir, bensín og þess háttar. Rökin eru m.a. þau að ef hægt er að banna auglýsingar um tóbak þá hljóti, með sömu rökum um skaðsemi, að vera hægt að banna að auglýsa jarðefnaeldsneyti. Slíkt eldsneyti mengi andrúmsloftið sem eins og dæmin sanna hefur slæm áhrif á heilsu fólks. Svo megi ekki gleyma áhrifum á loftslagið sem aftur hefur áhrif á veðurfar sem jafnvel veldur gífurlegum hamförum og fjörtjóni. Þess vegna sé það réttlætanlegt að banna slíkar auglýsingar þar sem þær séu meðvirkandi í að skemma plánetuna – og okkur sjálf í leiðinni.
Þá er hin eilífa spurning um hvort auglýsingar hafi slík áhrif að við getum ekki valið sjálf hvað er rétt og gott fyrir okkur. Um þetta er deilt, stjórnmálafólk, auglýsingastofufólk og Greenpeace
Hinir andstæðu pólar eru hvorutveggja sammála um að auglýsingar hafi áhrif (skárra væri það) en þeir eru ósammála um hvers eðlis þau eru. Fulltrúar Greenpeace vilja meina að auglýsingar hafi áhrif á og grafi undan sjálfstæðri hugsun fólks og séu til þess fallnar að þetta sama fólk taki ákvarðanir sem eru þeim ekki til hagsbóta. Auglýsingastofufólkið danska segir að þvert á móti þá veiti auglýsingar neytendum nauðsynlegar upplýsingar sem hjálpi þeim að taka upplýstar og sjálfstæðar ákvarðanir. Fræðifólk og rannsakendur í háskólum í Suður-Danmörku (Syddansk Universitet) telja þetta fullmikla einföldun. Það séu ekki aðeins auglýsingarnar sem fái okkur til að „fljúga“, jafnvel þó maður telji sig aðhyllast grænan lífsstíl. Heldur bendi flestar rannsóknir í markaðsfræðum til að það séu ekki auglýsingarnar sem finni upp á óskum/þörfum neytenda en túlki þau gildi og þá menningu sem liggi til grundvallar löngunum hverju sinni. Við erum sammála þessu, við stjórnum því ekki hvað fólk vill og langar. Við bendum hinsvegar á og fylgjum straumnum. Ekki satt?