Rétt fyrir jólahlaðborðið okkar á föstudagskvöld fengum við þær fréttir að herferðin Finndu muninn, sem við gerðum fyrir Blush, hefði unnið brons í Art Directors Club of Europe verðlaununum eða ADC*E. Bronsið féll Blush í skaut í flokknum Integrated & Innovation – Integrated Campaigns for Commercial Brands, en herferðin var einnig tilnefnd í flokknum Brand Experience – Live Stunts Brand Activation.
Í kvöld og á morgun verður greint frá úrslitum Epica verðlaunanna en Blush og Toyota á Íslandi hlutu bæði tilnefningar. Toyota í flokknum Vehicles, Automotive Services & Accessories fyrir herferðina Takk Egill, en Blush fyrir Finndu muninn í flokknum Health & Beauty. Til hamingju Blush og Toyota!
En alþjóðleg auglýsingaverðlaun eru ekki það eina sem beðið er með eftirvæntingu þessi misserin. Aðventan er komin og áður en við vitum af verður sósan brunnin við á hellunni og þá klúðrast bindishnúturinn því það er ómögulegt að ná honum í fyrstu tilraun og við erum orðin allt of sein með allt og alla.
Við vorum snemma með jólagjafirnar þetta árið. Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir örlitlum samdrætti (0,29%) í smávöruverslun fyrir þessi jól, samanborið við síðasta ár. Það er rakið til snemmbúinna jólainnkaupa, landsmenn hafi verið duglegri en áður að nýta sér tilboðsdaga í nóvember til að kaupa gjafirnar á hagstæðara verði. Það þarf ekki að koma á óvart á tímum verðbólgu, vaxandi húsnæðiskostnaðar, stýrivaxtahækkana og hækkandi matvöruverðs.
Já, við vorum snemma í því í ár og gerðum góð kaup! Þess vegna ætlum við að leyfa okkur aðeins á aðventunni. Stytta biðina, verðlauna okkur fyrirhyggjuna og hagsýnina með því að fara á jólatónleika, á jólahlaðborð, út að borða, í leikhús og á öll jólaböllin og húllumhæin með krökkunum og svo ætlum við að kaupa nýtt og fínt jólaskraut og dúlla okkur við að setja það upp og hygge os á meðan að við gleymum að bera gljáann á hrygginn áður en hann fer í ofninn, enginn búinn að fara í sturtu, límbandið týnt og krakkarnir ennþá í krummafót þegar „KLING, KLANG“.
Klukkurnar hringja og jólin ganga í garð. Því þau koma bara þegar þau koma. Og þá dettur allt í dúnalogn. Hátíð í bæ, jól í kotinu og allt gott.
Gleðilega hátíð!