skrifbord
03/12/2020

Ekki svona nálægt mér

YouTube sendir reglulega hugmyndir að einhverju skemmtilegu til að horfa á, tillögurnar sveiflast á skjáinn, algrímið er að störfum. Eitt slíkt myndband bar fyrir augu á dögunum, spjallþáttur þar sem frægt fólk sat í sófa og talaði hvert við annað og þáttastjórnandann. Þegar ég hafði áttað mig á hverjir sátu í settinu, sem er reyndar algjört aukaatriði hér, fann ég þessa óþægilegu tilfinningu sem maður finnur stundum, þegar eitthvað er svo kolrangt. Og hvað skyldi það nú hafa verið? Jú, fólkið sat svo þétt saman, gjörsamlega öxl í öxl og það grímulaust. Það var ekki fyrr en greinarhöfundur, hún/hann/hán, áttaði sig á að myndbandið var frá 2015 að óþægindatilfinningin hvarf. Það ár mátti nefnilega sitja svona þétt saman. Tilfinningin var svipuð því þegar þú sérð að einhver gerir eitthvað af sér og þú veist það. Svipuð tilfinning – ef einhver skyldi kannast við hana – og þegar þú stendur með fernu eða plastpoka og hefur ekkert ílát til að setja það í af því þú ert ekki heima hjá þér innanum flokkunarílátin þín.

Svona er maður, þrátt fyrir allt, snöggur að skipta um siði og venjur, ef maður verður að gera það. Það er kannski einmitt það sem þessi blessaði faraldur er að kenna okkur. Fyrir aðeins örfáum mánuðum hefði greinarhöfundur ekki séð neitt athugavert við að sjá fólk sitja þétt saman á þennan hátt. En núna vitum við að hægt er að skipta um siði og venjur, hægt að breyta hlutum. Rétt eins og við höfum líka lært að flokka, erum að læra að nota fötin okkar betur, nýta hlutina lengur. Að við þurfum ekki að eiga allt og gera allt eða vera eins og allir hinir. Það eru heilmikil verðmæti í því fólgin. Líka fyrir auglýsingastofur. Því í hvert sinn sem nýir straumar og stefnur koma fram þá þarf einhver að segja frá því, forma það, kynna. Auglýsingastofur eru stórir þátttakendur í því. Gleðilega hátíð, öll sömul!