fostudagurinn langi
01/12/2022

Föstudagurinn ógnarlangi og svarti

Snemma hausts fáum við að heyra að jólin byrji hér og jólin byrji þar. Aðventuna heyrist minna um. Aðventan er reyndar oft kölluð jólafasta. Einmitt já, það. Jólafasta snerist upphaflega um að neita sér um kjöt. Sú jólafasta hefur eitthvað snúist við því aðventan er notuð nú orðið til að hittast á veitingahúsum og njóta veislumatar og veiga, helst sem oftast. Borða fullt af kjöti. Auðvitað þarf að vera grænmetis- eða vegan-val líka, fyrir þá sem „fasta“ heilsárs. Raunar verða ALLIR að hittast aðeins í desember áður en blessuð jólin ganga í garð. Alls konar vina- og kunningjasambönd eru treyst dagana fram til jóla. Á árum áður lá þungt á fólki að „vera búið að öllu“ fyrir jólin og það var helsti stressvaldurinn. En krafan um að hittast og „njóta“ er orðin svo ákveðin að þetta með að „vera búin að öllu“ bliknar hjá hittingskröfunni – og veldur álagi í sjálfu sér.

Nóvember var með svartasta móti þetta árið, svartari en nokkurn rekur minni til og það hafði lítið með snjóleysið að gera. Og lengri. Svartur föstudagur teygðist upp í viku, jafnvel heilan mánuð í einhverjum tilvikum. Móttökustöðvar sorps kveinka sér í kjölfarið.

Við skulum samt ekki gleyma því hvaðan þessi póstur sem þú ert að lesa kemur. Við sem störfum á auglýsingastofum erum auðvitað til í‘edda, svona að flestu leyti. Það er okkar starf að segja frá því sem er í boði hverju sinni og breiða það út. En við sjáum og heyrum. Nágrannar okkar í Landvernd boðuðu nægjusaman nóvember. Í þágu okkar sjálfra og umhverfisins. Nægjusemi má reyndar glöggt greina jafnt í samfélagsumræðunni og síðast en ekki síst í tískustraumum. Það er nánast orðin dyggð að nota, nýta og endurnýta, fatnað sem lengst. Fréttir berast af stjórnarfundum toppa í Patagonia sem hika ekki við að sitja fundi stagbættir – af hugsjón – fyrirtæki sem hefur verið í fararbroddi hvað varðar sjálfbærni og umhverfisvernd í framleiðslu sinni. Raunar gefið jörðinni fyrirtækið sem og stofnað fyrirtæki utan um notuð föt frá Patagonia. Geri aðrir betur.

Nýjungar í hönnun einkennast af sjálfbærri nýtingu hráefna og slík hönnun er verðlaunuð. Jólin eru á næsta leiti, þau boða okkur ekki marga frídaga að þessu sinni og þess vegna um að gera að nýta tímann vel til rólegrar og gefandi samveru, því eins og sagði í fornkveðinni auglýsingu: „Jólin eru tími elskulegrar íhaldssemi, þegar við viljum vera viss um að allt sé eins og það á að vera.“

Gleðilega aðventu – og gleðileg jól!