Gönguleið að gosinu
08/04/2021

Gos og TBWA

Fyrir rúmlega ári síðan „lenti“ meginþorri þjóðarinnar í nýjum og framandi fjar-veruleika og reyndi eftir bestu getu að fóta sig og láta hlutina ganga þannig. Skelltum heimilum okkar meira og minna í lás og vorum sjálf fyrir innan. Allt árið hafa skipst á skin og skúrir, búbblurnar hafa bólgnað út og skroppið saman eftir stöðu smita hverju sinni. Í hvert sinn sem við höldum að við séum að komast vesturyfir kemur eitthvað nýtt upp á og við rennum niður skriðuna á ný.

Svo kom eldgos, Geldingadalir og Merardalir á hvers manns vörum. Og það sem meira er, það var og er nokkuð aðgengilegt að sjá náttúruundrið, sérstaklega ef þú átt nesti og nýja skó, höfuðljós og brodda, eitthvað hlýtt, já og vindskel. Tíminn leiðir í ljós hvort þetta eldgos verði hluti af endurreisninni eftir faraldurinn. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem náttúruöflin legðust á árarnar með oss Íslendingum.

Eins og alkunna er þá heitir stofan okkar PiparTBWA en skammstöfunin TBWA merkir að við erum hluti af TBWA-auglýsingastofukeðjunni sem telur yfir 300 stofur um heim allan. Þetta samstarf gefur okkur kost á að nýta okkur upplýsingar frá systurstofum víðsvegar um heiminn, læra af þeim og kafa ofan í visku- og upplýsingabrunn kollega okkar og skiptast á dýrmætri reynslu.

Á dögunum fengum við fréttir af því að TBWAWorldwide var útnefnd af Fast Company árið 2021 á topp tíu lista sem frumlegasta stofa í heimi, nánar tiltekið hin þriðja í röðinni, að þessu sinni fyrir tvær Apple® auglýsingar sem kallaðar eru hinar bestu í faraldrinum. Þökk sé TBWA þá er nú algjör óþarfi að fara til Pétursborgar til að skoða listaverkin í Vetrarhöllinni, við getum skroppið í sýndarveruleikaferð sem farin var – og skotin á iPhone í einni töku (rúmlega 5 klst. löng mynd). Til hamingju TBWA.