sorp
18/05/2023

Grænþvottur og grænþöggun

Grænþvottur er vel þekkt hugtak en annað hugtak er komið á kreik sem er grænþöggun (green hushing). Það er þegar fyrirtæki sem þó eru að gera eitthvað í umhverfismálum, t.a.m. með því að draga úr vistsporum í framleiðsluferlinu, veigra sér við að tala um það af því að þau eru hrædd um að vera smánuð fyrir að gera ekki nóg, ekki rétt, ekki nógu þóknanlegt.

Við skulum ekkert vera feimin við að segja frá því sem þó er gert og aldrei hætta að reyna að gera betur.

50.000 ruslatunnur eru á leið til íbúa á höfuðborgarsvæðinu, í samræmi við nýju hringrásarlögin til að auðvelda flokkun svo vinna megi verðmæti úr úrganginum. Í hvert sinn sem við drögum eitthvað heim úr verslunum þurfum við að losa okkur við úrgang.

Lengi vel voru framleiðslufyrirtæki ekki mikið að velta fyrir sér ábyrgð sinni í framleiðslu hvað umbúðir varðar að öðru leyti en því að passa upp á að maturinn kæmist óskaddaður til neytandans. Áherslan, t.d. hjá matvælafyrirtækjum, snerist fyrst og fremst um að finna heppilegar umbúðir til að varðveita matinn – og helst lengja „líftíma“ matvælanna og gæta þess að umbúðirnar væru heilnæmar frá manneldissjónarmiði. Nauðsynlegar áherslur í sjálfu sér. Síðan var (er) það á ábyrgð neytenda að taka við með úrganginn. Þetta hefur þó verið að breytast hratt. Framleiðslufyrirtæki hafa áttað sig á að það þarf að hugsa lengra.

Við, á auglýsingastofum, getum lagt okkar á vogarskálina í umbúðahönnuninni og hjálpað til með fræðslu. Sett á umbúðirnar leiðbeiningar um hvernig á að flokka þær. Flest höfum við staðið með umbúðir í höndunum, að spá í hvort þetta sé nú plast eða pappír og hvert þær eigi að fara? Þríhyrningsmerkt plast t.d. með tölunni 7 innan í, hvert fer það? Það má komast að því með gúgli að slíkt plast hentar ekki til endurvinnslu. Hvað geri ég þá? Flokka það með plastinu eða hendi í almenna? Hjálpum til með því að setja það á umbúðirnar. Auðvitað fer ekki allt sorp í nýju tunnurnar, eftir sem áður þarf að koma öllu öðru á viðeigandi móttökustaði. Við á PiparTBWA setjum hjálparmerkingar á umbúðir hvenær sem við fáum tækifæri til og hvetjum alla sem koma að umbúðahönnun til að gera það líka.