HM er afstaðið og birtingadeild Kaaber-hússins er alsæl með áhorfið, ekki síst á Íslendingaleikina þó auðvitað hefði verið meira stuð ef okkar menn hefðu komist lengra. Viðburður á borð við þennan skiptir miklu máli fyrir auglýsingafagið. Vítamínsprauta fyrir alla okkar starfsemi, allt frá auglýsingagerðinni sjálfri til birtingar. Dýrmætt tækifæri fyrir fyrirtækin til að koma vörum sínum og þjónustu á framfæri. Framundan er síðan annar sjónvarpsviðburður, sem þjóðin hefur ámóta dálæti á, en það er auðvitað Söngvakeppni Sjónvarpsins. Þrjú glæsileg sjónvarpskvöld í okkar rammíslenska miðli, tvenn undanúrslit og síðan eitt lokakvöld þar sem sigurlagið verður valið. Aðdáendur þessara tveggja viðburða skarast að sumu leyti þó stærra mengi af yngri kynslóðinni sé eðlilega spenntari fyrir Söngvakeppninni en HM í handbolta. Annað sameiningartákn okkar þjóðar er svo okkar hjartfólgna Vigdís, en þættirnir um hana færðu mjög marga að skjánum.
Hér í húsi höfum við haldið morgunfundi upp á síðkastið þar sem reifuð hafa verið ýmis málefni sem tengjast markaðsmálum á breiðum grundvelli. Landris var yfirskrift fundar sem fjallaði um málefni ferðaþjónustunnar og hvernig hún kemur sér á framfæri. Síðustu tveir fundir voru kallaðir E-Vent þar sem tekið var vefverslunarmálum og áskorunum innlendrar verslunar í stórum samkeppnisheimi.
Í þessari viku var síðan tekið fyrir málefnið þjónusta í verslunum og á netinu. Þessi fundur var vel sóttur, eins og fyrri fundir, og góðar umræður sköpuðust í lokin um tækifæri og vannýtta möguleika til að bæta þjónustu og gera hana enn skilvirkari. Við höfum fengið utanaðkomandi fyrirlesara á þessa fundi, auk okkar eigin uppleggja. Næsti morgunfundur verður í lok febrúarmánaðar en þar verður meginþemað miðlanotkun á Íslandi. Deildarstjóri PiparsMedia, Huld Óskarsdóttir verður þar með framsögu ásamt fleirum. Huld fjallar um þróun á lestri, áhorfi og hlustun í íslenskum miðlum síðustu ár. Enn fremur verður umfjöllun um daglega dekkun á samfélagsmiðlum og vinsælum öppum sem verður fróðlegt að heyra af.
Fátt togar fólk meira að vefmiðlunum og fjölmiðlum yfirleitt en veðrið. Rauð veðurviðvörun, jarðhræringar – að ekki sé talað um eldgos. Hræringar í stjórnmálum líka, innanlands og utan (Trump fær eilífa athygli) þó veðrið sé einhvern veginn alltaf efst á blaði. Rífress, rífress, rífress. Huld þekkir fréttaþorstann mjög vel og nýtir hann í störfum sínum til að „ná í fólk.“ Það verður áhugavert að heyra þessa umfjöllun. Viðburðurinn verður kynntur betur þegar nær dregur, bæði á póstlistanum okkar og fleiri miðlum. Missið ekki af honum.