agga og selma
07/09/2023

Hönnuðir út í heim

Starfsfólk stofunnar gerir víðreist um þessar mundir í ýmsum kraftmiklum erindagjörðum. Fyrst ber að nefna að Selmu Rut Þorsteinsdóttur, yfirhönnunarstjóra CCD var boðið að dæma á auglýsingahátíðinni Ad Black Sea – International Festival of Creativity sem fram fer 14.–16. september næstkomandi í Batumi í Georgíu. Ferðalagið er töluvert langt og úr því að lagt er af stað þótti georgískum konum sem starfa fyrir UN Women þar í landi kjörið að nýta ferðina og biðja hana, ásamt annarri konu hér á stofunni, að flytja fyrirlestur um jafnrétti í auglýsingagreininni. Konan sú er Agga Jónsdóttir hönnunarstjóri CD/CXD. Selma og Agga flytja fyrirlesturinn í sameiningu og nefnist hann „I dare, I can, I will – The superpowers of advertising“ eða „Ég þori, ég get, ég vil“. Í fyrirlestrinum segja þær frá reynslu sinni – og annarra kvenna af því að starfa í íslenskum auglýsingaheimi.

Jafnréttismál í Georgíu og löndunum þar í kring eru töluvert skemmra á veg komin en t.d. hér á landi og leggja þær Selma og Agga sín lóð á vogarskálarnar í þessum efnum einnig með því að vera með með vinnustofu um jafnrétti og í kjölfarið ásamt því að taka þátt í pallborðsumræðum.

Anna Karen Jörgensdóttir er grafískur hönnuður sem jafnframt á að baki langan feril í siglingaíþróttinni. Hún er ein af Seiglunum, hópi skútusiglingakvenna, sem unnu það afrek fyrir tveimur árum að verða fyrsti íslenski kvennahópurinn til að sigla hringinn í kringum landið. Í kjölfar hringferðarinnar bauðst þeim að taka þátt í alþjóðlegri siglingakeppni kvenna í New York en keppnin sú nefnist Lady Liberty Regatta og verður haldin af Manhattan Yacht Club dagana 8.–10. september næstkomandi.

Í áhöfninni eru fimm konur og hafa þær æft fyrir þessa keppni síðan í mars. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskar konur taka þátt í skútusiglingakeppni af þessu tagi.
Hér má sjá áhöfnina á hvínandi siglingu í sumar.

Við óskum okkar öflugu konum góðrar ferðar og velgengni í þessum mögnuðu verkefnum – víða um heim. Áfram Ísland!