Auglýsingar eru á vissan hátt samtal. Einátta samtal, af því auglýsandinn er ekki viðstaddur þegar viðfangið svarar – meðtekur auglýsinguna, bregst – eða bregst ekki við. Skilur, gleðst, kaupir – gerir það sem auglýsingin kallar á. Við sem störfum við auglýsingar tölum óbeint við fólk. Við setjum okkur inn í hugarheim, reynum að átta okkur á því hvað það er sem er jákvætt og mikilvægt við vöruna eða þjónustuna sem okkur er trúað fyrir að segja frá. Leiðir og aðferðir til þess eru ýmsar, allt frá húmor upp í grásvartar staðreyndalýsingar. En alltaf er markmiðið að vekja athygli og hitta þau sem máli skiptir. Mörgum finnst skipta miklu máli að auglýsingar séu fyndnar. En hvort fyndnar auglýsingar skili meiri sölu, meiri árangri, það væri alveg þess virði að mæla það.
Við viljum auðvitað gera hið rétta, segja réttu hlutina. Vera réttu megin. Nota réttu orðin, réttu fornöfnin. Taka tillit. Í pistli sem birtist á danska miðlinum Markedsføring (fyrir stautfæra í dönsku) er sagt frá könnun sem stofa í Danmörku lét gera í miðjum faraldri. Tvær spurningar í könnuninni fjölluðu um húmor í auglýsingum.
Önnur spurningin var: „Hvað gerir auglýsingu góða?“ 85% svarenda sögðu að það væri „Húmor – að hún sé fyndin og komi þeim til að brosa/hlæja.“
Síðari spurningin var: „Hvaða gagn er að auglýsingum?“ 25% aðspurðra sögðu: „Húmor – fær mig til að brosa/hlæja.“ Í sama pistli segir frá athugun sem greiningar- og ráðgjafarfyrirtækið Kantar gerði um notkun húmors eða léttleika í auglýsingum. Sú athugun leiddi í ljós að „húmor og léttar nótur“ í auglýsingum eru á undanhaldi. Árið 2001 var húmor beitt til að koma boðskap á framfæri. Árið 2016 var svo komið að aðeins 37% auglýsinga nýtti húmor til að ná í gegn. Áhugavert. Við teljum okkur vita að það sé sífellt erfiðara að ná í gegn – snerta strenginn sem virkar. Rétta strenginn. En stysta leiðin á milli fólks er yfirleitt brosið, eða það sem fær fólk til „at trække på „smilebåndet“ – eins og dansk-ameríski háðfuglinn Victor Borge sagði eitt sinn (det korteste bånd mellem to mennesker“ ). Við höldum því þó alls ekki fram að beiting húmors í auglýsingum sé hin eina rétta leið. En það er oftar en ekki ágætis leið.