Kona með taupoka.
03/09/2021

Kaupa minna, nota betur, sóa minna

Í byrjun júlí gekk í gildi bann við einnota burðarpokum á kassasvæði í verslunum. Notkun fjölnota poka hefur stöðugt færst í vöxt síðustu ár og flokkun sorps er orðin mjög mikil meðal almennings og fyrirtækja, enda er til þess ætlast. Það er ekki aftur snúið þegar maður er einu sinni byrjaður að flokka, þá er ómögulegt að sleppa því. Mann nánast verkjar þar sem það er ekki í boði.
Áður voru plastpokakaup undir vörur hiklaust réttlætt með því að þeir yrðu síðan notaðir undir heimilissorpið. Maíssterkjupokarnir tóku við því hlutverki en þeir hafa líka verið fjarlægðir af kassasvæðum. Þess vegna splæsir maður stundum í gráa sorppoka – úr plasti – bara undir heimilissorpið. Þeir eru ÓRALENGI að brotna niður en „kosta“ umhverfið frekar lítið í framleiðslu. Einnota pappírspokar brotna ágætlega niður en framleiðslan leggur mun meira á umhverfið. 

Að sama skapi fá þeir plastpokar sem þó berast inn á heimilið iðulega nýtt hlutverk. Brauðpokar eru t.d. fínir undir nesti, mörgum sinnum. Á samfélagsmiðlum spretta upp hópar þar sem skipst er á hugmyndum um endurnýtingu á dagligdagsdóti sem áður var hent hugsunarlaust. Hugsun neyslukynslóðarinnar er smám saman að breytast. Verslanir fylgja með, framleiðendur sjá sitt óvænna og gera það líka. Sem er eins gott. Fjölnota pokar eru eiginlega í tísku. Það er bara töff að láta sjá sig með flottan fjölnota bómullarpoka EN það „kostar“ líka umhverfið fjári mikið að framleiða þá. Dönsk rannsókn þess efnis bendir t.a.m. til þess að pappírspokar gangi 40 sinnum meira á umhverfið en plastpokar. Taupokar séu 7.000 til 20.000 sinnum verri og lífræna bómullin verst, því hún krefst orkufrekari framleiðslu og meira rýmis.

Allt sem er gott er líka vont. Hvað í ósköpunum getum við þá gert? Jú, kaupa minna, nota betur, sóa minna.