tiktok 1757132165
23/12/2021

Kína tekur yfir internetið!

TikTok hefur tekið fram úr Google sem vinsælasta lén (e. Domain) í heimi. Google hefur trónað á toppi listans í 15 ár sem langvinsælasta lén veraldar og því eru þetta risastórar fréttir. TikTok er í boði í um 150 löndum, með yfir 1 milljarð notenda og þar af eru 130 milljónir virkra notenda í Bandaríkjunum. Núverandi spá gerir ráð fyrir því að notendum muni fjölga upp í 1.500.000.000 árið 2022 sem verður að teljast gríðarlegur fjöldi í öllum samanburði. Því verður sérlega áhugavert að fylgjast með miðlinum og þróun hans á komandi ári með tilheyrandi áhrifum á markaðssetningu vörumerkja. Til viðbótar við stærð hins kínverska TikTok má nefna að annað stærsta rafviðskiptalén (e. Ecommerce Domain) heims er einnig kínverskt, nefnist Taobao.com og fylgir á eftir Amazon.com.

Vinsælt „trending“ efni

Á þessu má þykja ljóst að TikTok-efni og gerð þess mun leiða „creative“ stefnu næsta árs og gæti áhugaverðar afleiðingar í för með sér fyrir grafíska hönnuði, framleiðendur efnis og hugmyndasmiði. Vinsælasta efnið á TikTok er sjaldnast framleitt með dýrustu myndavélunum eða annarri tækni og hefur því ekki yfirbragð framleiðslurisa á borð við Netflix eða kvikmyndastúdíóanna. Nei, nú kveður við annan tón og þessi gerð efnis, sem hlotið hefur nafnbótina „anti-craft“ virðist ætla að ryðja sér til rúms og ber einkenni þess að vera skotið á snjallsíma eða með öðrum óformlegum lausnum. Rétt er að taka fram og hafa í huga að TikTok er ekki samfélagsmiðill, heldur afþreyingarmiðill með skemmtiefni og efst á baugi eru húmor, hamingja og fleiri hráar og mannlegar tilfinningar.

Þegar litið er yfir 2021 og þau vörumerki sem nýta sér TikTok sem best er gaman að horfa til Ryan Air en þau hafa búið til mikið af skemmtilegu efni þar sem stuðst er við notkun filtera og hispurslausan húmor. Önnur vörumerki sem hafa staðið sig vel og er vert að horfa til eru til að mynda BMW, Levi‘s, Zara, British Red Cross og lúxusvörumerkið Prada.

Greiddar auglýsingar

TikTok er líka með auglýsingaenda (e. Ads Platform), svipað og Google og Facebook þar sem hægt er að byggja upp auglýsingaherferðir með miðun á sérstaka markhópa, landsvæði og annað slíkt. Reyndar er ekki opið fyrir þennan hluta TikTok á Íslandi (sökum smæðar okkar) en flest önnur lönd bjóða upp á þennan möguleika. Fyrr á þessu ári bætti TikTok loksins við landsvæðamiðun (e. Geo Targeting) sem gefur góða mynd af því hversu auglýsingaendinn er skammt á veg kominn, samanborið við mjög svo þróaða miðla Google og Facebook. En þrátt fyrir þetta er TikTok að þroskast hratt. Nýjungar eru reglulegar og hér hjá PiparTBWA og The Engine erum við sannfærð um að bilið milli TikTok og stærri miðla muni minnka hratt á komandi misserum.

Hvar er TikTok í trektinni?

Önnur áhugaverð umræða markaðsfólks undanfarið hefur snúist um staðsetningu TikTok í sölutrektinni. Erfitt er að nota TikTok neðarlega í trektinni (e. Bottom Funnel) til að mynda með áherslu á sölu, þar sem árangur auglýsinga hefur verið stopull. Frekar hefur þessi vettvangur virkað ofar í trektinni þegar vekja skal athygli á vörumerkinu og eiga í samtali við mögulegan markhóp. Aðrir miðlar eru enn sem komið er betur fallnir til þes að taka við næstu skrefum í notendavegferðinni en spennandi verður að sjá hvernig þessi hluti auglýsingahliðar TikTok mun þroskast á komandi misserum.

TikTok er lítið fyrirtæki í samanburði við Google og Facebook. Varlega áætlað er TikTok með í kringum $2 milljarða í árstekjur á meðan Facebook halar inn $86 milljarða og Google $181 milljarð. Stóru tæknirisarnir ættu þó að gæta sín því þessir hlutir breytast hratt  — og það getur verið afar kalt á toppnum.

Verður 2022 ár TikTok?