gaman
12/10/2021

Maður er manns gaman

Þó að Covid-19 faraldurinn sé heldur óskemmtilegur hefur hann þó fleytt okkur áfram í þróun, til dæmis hvað vinnustaði og vinnustöðvar varðar. Mörg hver neyddumst við til að flytja vinnuna heim meðan á honum stóð. Það opnaði augu okkar fyrir því að kannski þyrftum við ekki jafnstórt húsnæði undir ýmsa starfsemi, til dæmis skrifstofur, eins og áður var talið. Það gefur augaleið þegar drjúgur hluti starfsfólks er með vinnustöðina á heimili sínu í stað þess að vera „í vinnunni“. Við gætum jafnvel bara skipst á að mæta á vinnustaðinn. Minna húsnæði, minni kostnaður. Og ekkert því til fyrirstöðu að taka fundi á Zoom, eða Teams, eða Meet, eða hvað nú verður fyrir valinu, heima. Minni umferð og um leið minna kolefnisspor.

Á meðan faraldurinn stóð sem hæst vorum við flest hin ánægðustu með þetta nýja fyrirkomulag og sátt við hvað það er í raun einfalt og þægilegt að vinna heima. Þeir sem hafa næði til þess þ.e.a.s. Kostir og gallar.

En eftirköstin eru líka smátt og smátt að koma í ljós, ekki af pestinni beinlínis heldur situr í fólki þreyta yfir einangrun. Dýnamíkin sem aðeins verður til í samstarfi og samtali. Það kemur nefnilega ekkert í staðinn fyrir að hitta fólk augliti til auglitis. Morgunkaffi á föstudegi eða viðburðir eins og afmæliskaffi í vinnunni gleðja alveg sérdeilis mikið. Gleðin yfir því að lífið færist óðum í fyrri skorður. Litlu hlutirnir.
Meðal þess sem hefur dottið inn með haustlægðunum eru leikhúsin og tónleikastaðirnir. Við getum notið þess að sitja í leikhúsi eða tónleikasal og drekka í okkur það sem fram er borið, og almáttugur hvað maður hefur saknað þess.
Til að sýna það þakklæti í verki ættum við að fara sem oftast í leikhús, á sýningar, tónleika eða slíka viðburði svo þessar menningarstofnanir nái sér á fullt strik sem fyrst aftur.