ruv
14/03/2022

RÚV af auglýsingamarkaði

Margir virðast álíta að aðeins ef RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði þá muni rekstur annarra fjölmiðla blómstra. Að bara ef RÚV gleypi ekki allt auglýsingafé sem í boði er þá hljóti það sama fé að byrja að streyma til þeirra og allt verði gott. Dæmi frá öðrum löndum virðast benda til annars. Það helst nefnilega í hendur að til að það sé þess virði að auglýsa á miðli þarf fólk að horfa/hlusta á hann. Út á það gengur fagleg auglýsingadreifing. Stærstu einkareknu miðlarnir tveir, Stöð 2 og Sjónvarp Símans, lifa fyrst og fremst á áskriftarsölu. Þar með skerðist aðgengi að áhorfendum umtalsvert því það eru ekki allir landsmenn áskrifendur. Það er óumdeilt að opni ríkisrekni fjölmiðillinn RÚV ber höfuð og herðar yfir aðra hvað áhorf varðar í öllum aldursflokkum og kynjum. Og það þarf ekki Verbúðina vinsælu til. Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja laskast verulega ef ekki er hægt að koma skilaboðum til neytenda á auðveldan hátt.

Dæmi frá Frakklandi og Spáni sýna að sú ráðstöfun að takmarka eða hætta auglýsingum á ríkisfjölmiðlum skilar einkareknum fjölmiðlum ekki meiri auglýsingatekjum, öðru nær.

Sjónvarpsauglýsingar eru langáhrifaríkasta leiðin til að byggja upp vörumerki og koma vörum og þjónustu á framfæri við neytendur.
Enginn íslenskur fjölmiðill stendur RÚV á sporði sem birtingamiðill. Þangað leitar fólkið til að horfa, það er óumdeilt og nægir að skoða mælingar af handahófi til þess að átta sig á því (hér frá viku 5, dagana 31. janúar – 6. febrúar).

Áhorfskakan stækkar ekki sjálfkrafa þó RÚV fari af auglýsingamarkaði heldur verður mun erfiðara að ná í fólk. Um leið verður erfiðara að réttlæta kostnað við að framleiða sjónvarpsauglýsingar og það hefur í för með sér tekjumissi mikils fjölda fólks í skapandi greinum, s.s. við tökur, hljóðvinnslu, ljós, stíliseringu, auk hugmyndavinnu og auglýsingagerðar. Til að ná í massa neytenda þurfum við áhorf, hlustun og lestur, góða dekkun. Hætt er við því að erfitt verði að verja birtingar auglýsinga á stöðvum þar sem aðeins er hægt að ná í fáa.