Samfélagsleg ábyrgð
05/03/2021

Samfélagsleg ábyrgð

Eflaust hafa einhverjir tekið eftir því að fyrirtæki láta í auknum mæli til sín taka í samfélagstengdum málum. Nokkur ofur-vel þekkt dæmi er Nike og tengsl þess við Colin Kaepernick og Patagonia og barátta þess við Donald Trump forseta um verndun þjóðgarða í Bandaríkjunum (sem Trump lokaði og leyfði þar olíu-, gas- eða námavinnslu). Bara tvö dæmi af fjölmörgum sem hægt væri að taka. En hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki vera að taka þessa afstöðu, sem í flestum tilvikum er rammpólitísk og flest fyrirtæki hafa forðast sem heitan eldinn síðustu áratugi? Ástæðan er kannski þessi litla setning – Doing good is good for business. Fyrirtæki sjá sér raunverulegan hag í því að taka afstöðu í hinum ýmsu málum, sem þau hefðu aldrei gert fyrir nokkrum árum síðan.

Viðskiptavinir þessara fyrirtækja eru nefnilega farnir að krefjast þess að fyrirtækin geri eitthvað fyrir umhverfið eða samfélagið, annars fari þeir með viðskipti sín og velvild annað. Til dæmis segjast 75% af neytendum í Bandaríkjunum vera reiðubúnir að hefja viðskipti við fyrirtæki sem styður málefni sem þeim er kært og 66% segjast tilbúin að greiða meira fyrir vöru frá fyrirtæki sem styður mikilvæg samfélagsmál (Clutch, janúar 2019).

Forstjóri Deloitte ráðgjafarfyrirtækisins dró þetta vel saman – „We firmly believe that companies motivated by a greater societal purpose will be stronger, more successful businesses for the long term.“ En hvernig standa íslensk fyrirtæki sig hvað varðar samfélagslega ábyrgð? Hafa þau tekið jafn skýra afstöðu og dæmi eru um erlendis? Vissulega styðja íslensk fyrirtæki íþróttastarf í stórum stíl. Íslandsbanki kemur upp í hugann fyrir jafnréttismál, allar umbúðir hjá Te & Kaffi eru orðnar niðurbrjótanlegar og stefnt er á að orkugjafinn í brennslunni verði íslenskt metan. Olís hefur stutt við skógrækt árum saman, BM Vallá stefnir á kolefnishlutleysi og auðvitað eru fjölmörg fyrirtæki til fyrirmyndar í sorpflokkun, en svo fjarar þessi listi fljótt út. Það er deginum ljósara að hér liggja fjölmörg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að sýna viðskiptavinum sínum að þau skilji þessa nýju kröfu og hugsi til lengri tíma um leið? Það skilar þeim bæði velvild, viðskiptum – og betri jörð.