verdlaunagripir
30/03/2023

Uppskerutími

Að undanförnu hefur gengið á með verðlaunahátíðum fyrir tónlist, kvikmyndir, sjónvarp og síðast en ekki síst (að okkur finnst), auglýsingar. Fyrsta ber að nefna FÍT verðlaunahátíðina sem haldin var 17. mars. FÍT – félag íslenskra teiknara er fagfélag grafískra hönnuða. Þangað senda hönnuðir verk sem einstaklingar og þau eru dæmd á forsendum grafískrar hönnunar, eða eins og segir á vefsíðu: „ … það besta í grafískri hönnun og myndlýsingum á Íslandi.“

FÍT hátíðin var fengsæl en þar áttu „okkar teiknarar“ 5 tilnefningar og fengu tvenn gullverðlaun fyrir herferð og prentauglýsingar, hvort tveggja fyrir Blush-verkefnið „Finndu muninn!“ Því til viðbótar vann svo Agga Jónsdóttir hönnunarstjóri gull fyrir umbúðir bætiefnafyrirtækisins Venju.

Ímark blés svo til Lúðursins – íslensku auglýsingaverðlaunanna viku síðar. PiparTBWA fékk þar 12 tilnefningar í 11 flokkum og 4 fallegir lúðrar komu í hús. Áramótabomban „Takk Egill!“ fyrir Toyota var valin sjónvarpsauglýsing ársins. Sú auglýsing varð einnig hlutskörpust í vali fólksins, en vefmiðill Morgunblaðsins stóð fyrir kosningu almennings milli 37 sjónvarpsauglýsinga. Okkur þykir afar vænt um þessa lúðra enda verkefnið bæði einstakt og gefandi. Domino‘s-verkefnið „Árið þitt“ fékk lúður í flokki stafrænna auglýsinga, en þar gátu viðskiptavinir fengið skemmtilegt ársyfirlit og áttað sig á hvaða týpur þeir væru. Lúður fyrir PR ársins fengum við svo fyrir Blush, hina óvenjulegu fasteignaauglýsingu þar sem lesendur gátu svo sannarlega „fundið muninn“ í íbúð Gerðar Arinbjarnardóttur, roðnað smá og skemmt sér.

Það vekur alltaf gleði að fá tilnefningar og ekki síður lúðurinn sjálfan. Verðlaun sem þessi eru verðskulduð viðurkenning fyrir mikla vinnu og gefa um leið tækifæri til að bera sig saman við það besta sem gerist. En hvað svo? Jú, það þýðir víst ekki að dvelja lengi við verðlaun fyrir vinnu síðasta árs heldur halda áfram og reyna að gera enn betur næst. Og þannig gengur lífið í auglýsingalandi. Ár eftir ár.