March Forward er yfirskrift alþjóðlegrar herferðar og vitundarvakningar UN Women. Þar er kastljósinu beint að því bakslagi sem hefur orðið í jafnréttismálum á heimsvísu á síðustu árum – og við öll hvött til að leyfa hlutunum ekki að færast aftur á bak, heldur snúa við blaðinu og halda áfram.
Það er UN Women á Íslandi sem leiðir herferðina, í góðu samstarfi við landsnefndir UN Women um allan heim.
Við framleiddum kvikmyndaða auglýsingu í samstarfi við Atlavík og Allan Sigurðsson leikstjóra, þar sem Aldís Amah Hamilton túlkar bakslagið og viðsnúninginn eins og henni einni er lagið. Undir hljóma tónar GusGus & Vök, María Thelma Smáradóttir er íslenskur þulur, en mexíkóska leikkonan Karla Souza ljær alþjóðlegri útgáfu rödd sína.
Áhrifavaldar víða um heim slógu upptakt að herferðinni samhliða fréttaumfjöllun í ólíkum löndum. Kvikmyndaða auglýsingin var síðan frumsýnd í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York og í Kauphöll Íslands á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þar sem Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women Ísland, hringdi bjöllunni við opnun markaða.
Auk hennar tókum við ljósmyndir sem birst hafa sem hluti af herferðinni víða um heim og framleiddum ýmiss konar markaðsefni á íslensku og ensku s.s. varning, vefborða, prentefni, samfélagsmiðlaefni, sniðmát og leiðbeiningar til að hægt sé að aðlaga efnið að mismunandi mörkuðum og margt fleira.
Við höfum notið dyggrar aðstoðar kollega okkar á TBWAHelsinki við almannatengsl í erlendum miðlum, auk ómetanlegs framlags óteljandi sjálfboðaliða og þátttakenda í fjölmörgum löndum.
Herferðin March Forward heldur áfram út árið 2025 og þó áherslurnar kunni að vera örlítið mismunandi milli landa, þá er innihaldið alltaf hið sama. Við sýnum bakslagið og köllum á breytingar: Nú förum við áfram!