Vefsíðugerð

Við hjá Pipar tökum að okkur vefsíðugerð fyrir viðskiptavini. Við gerum litla vefi, stóra vefi og öpp. Við förum með þér í gegnum þarfagreiningu, mótum með þér stafræna stefnu og vefstefnu, ásamt samfélagsmiðlastefnu.

Vefhýsing

Það skiptir máli hvar þú hýsir vefinn þinn. Vefhýsing og hýsingaraðilar sem bjóða þjónustu sína eru eins misjafnir eins og þeir eru margir. Þú getur valið ódýra hýsingu fyrir vefinn en þá skiptir máli að lesa smáa letrið og vita hvað er innifalið í þjónustunni og hvað ekki. Deild hýsing þýðir til dæmis að vefurinn þinn deilir afkastagetu öflugra vefþjóna með öðrum. Til þess að tryggja uppitíma og öryggi þarftu kannski að velja stærri pakka þegar kemur að vefhýsingu.

Fyrir vefi í WordPress-vefumsjónarkerfinu getur skipt máli að velja hýsingaraðila sem bjóða upp á sérhæfða hýsingu fyrir WordPress-vefi. Þar höfum við góða reynslu af því að starfa með Veföld.

Við ráðleggjum þér varðandi val á hýsingaraðila og vefhýsingu fyrir vefinn þinn, því allt fer þetta jú eftir því hverjar þínar þarfir eru.

Vefur

Vefurinn er samheiti yfir allar vefsíðurnar á vefnum þínum. Þær mynda þannig skipulagsheild þar sem leitast er við að endurspegla starfsemina hvort sem um er að ræða vef fyrir vörumerki, vefverslun eða stóran vef um fjölbreytta starfsemi eins og í tilfelli sveitarfélaga eða opinberra aðila.

Vefurinn er lifandi, þetta er ekki verkefni sem tekur enda þegar vefurinn er settur í loftið. Þá fyrst er verkefnið að hefjast fyrir alvöru, þegar notendur fara að eiga samskipti á og í gegnum vefinn. Vefurinn þarf að vera hannaður með upplýsingaarkitektúr í huga og eftir vefstefnu sem skilar þeim markmiðum sem lagt er upp með. Vefinn þarf að uppfæra og endurskoða og það þarf að að vera jafn auðvelt fyrir viðskiptavini að grisja úrelt efni og að búa til nýtt vefefni, þegar þeir taka við vefnum í rekstur, eftir að við höfum smíðað hann.

Vefumsjónarkerfi

Vefumsjónarkerfi (CMS eða Content Management System) er kerfi til að skipuleggja og halda utan um vefefnið þitt, hvort sem það er texti, myndir, myndbönd, skjöl eða annað. Í vefumsjónarkerfinu er vefurinn byggður upp, valmyndin sem myndar veftréð og þar er upplýsingaarkitektúrinn skipulagður með mismunandi gerðum vefefnis; síðum, fréttum, greinum eða pistlum. Vefumsjónarkerfið heldur utan um tengla, tögg og flokka og þar vinnur þú leitarvélabestun. Þá heldur vefumsjónarkerfið utan um þær mælingar sem þarf að gera, svo sem fyrir Google Analytics.

Ef þú vilt selja vörur á vefnum þarf vefumsjónarkerfið líka að geta haldið utan um vefverslun, þar sem vörur eru í vöruflokkum, með verði og vörulýsingum ásamt afgreiðsluferli og greiðsluferli, auk afhendingarmáta.

Við vinnum að vefsíðugerð í mörgum vefumsjónarkerfum, en undanfarin misseri höfum við sérhæft okkur í uppsetningu vefja í WordPress-vefumsjónarkerfinu, sem hefur aukið markaðshlutdeild sína jafnt og þétt síðastliðinn áratug.

WordPress

Helstu kostir þess að velja WordPress sem vefumsjónarkerfi eru:

  • Frítt
  • Opinn hugbúnaður
  • Leitarvélavænt

WordPress-vefumsjónarkerfið er í grunninn ókeypis, þú greiðir engin mánaðargjöld eða kaupir hugbúnaðarleyfi í ákveðinn tíma sem síðan þarf að endurnýja. WordPress er opinn hugbúnaður (e. open source), sem þýðir að þúsundir forritara hafa möguleika á að skrifa viðbætur og ef öryggisgalli kemur upp þá keppast allir við að koma í veg fyrir hann, þannig að afkastagetan er ekki bundin við tvo forritara og annan í fríi. Í þriðja lagi verður að telja það með helstu kostum WordPress-vefumsjónakerfisins hversu leitarvélavænt það er. Þegar kemur að því að velja vefumsjónarkerfi til þess að vinna að leitarvélabestun, þá er WordPress efst á listanum.

Vefverslun

Viltu selja á netinu og ertu að hugsa um að opna vefverslun? Við aðstoðum þig við að opna þína netverslun og selja á netinu til þeirra markhópa sem þú vilt ná til.

Við förum með þér í gegnum þínar þarfir, til dæmis hvort þurfi að tengja netverslunina við birgðakerfi til að sýna rétta lagerstöðu. Þarf að tengja hana við bókhaldskerfi til þess að senda reikninga og hvaða greiðslugátt þarf að tengjast? Með viðskiptavinum okkar höfum við náð framúrskarandi árangri í sölu á netinu, sér í lagi þegar við höfum fylgt verkefnunum eftir með leitarvélamarkaðssetningu.

Við vinnum við vefverslanir í mörgum vefumsjónarkerfum fyrir viðskiptavini okkar, en fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í að selja á netinu þá mælum við hiklaus með því að setja vefverslunina upp í WooCommerce, sem er viðbót við WordPress-vefumsjónarkerfið.

WooCommerce-vefverslunarviðbótin

WooCommerce býður upp á sveigjanleika í uppsetningu, hvort sem er fyrir einfaldar eða breytilegar vörur. Uppsetning greiðslugátta og tengingar við greiðslulausnir eru boði, allt eftir þínum þörfum. Mismundandi afhendingarmátar og sendingarkostir eru í boði, sem og útreikningar á skatti. Allt eru þetta skref í ferlinu frá kaupanda sem verslar á netinu og þangað til hann fær vöruna afhenta frá þér, seljandanum.

Við fylgjum þér í gegnum allt ferlið við að setja upp netverslun og fara að selja vörurnar þínar á netinu. Við hönnum útlit verslunarinnar og ráðleggjum þér með útlit vörumynda til þess að auka líkur á sölu. Við kennum þér að skrifa vörulýsingar með leitarvélabestun í huga eða sjáum um það fyrir þig, þitt er valið. Við setjum verslunina upp, veitum þér handleiðslu um notkun hennar í bakendanum og gerum þér kleift að gera þetta á eigin spýtur ef þú kýst svo.

Í kjölfarið bjóðum við þér upp á fjölbreyttar leiðir í stafrænni markaðssetningu, svo sem póstlistamarkaðssetningu, vefauglýsingar, auglýsingar á samfélagsmiðlum eða leitarvélamarkaðssetningu. Við ráðleggjum þér að sjálfsögðu um bestu leiðina fyrir þig og þínar vörur.

Heimasíða

Heimasíða hefur einnig verið notað sem samheiti yfir vefinn, en heimasíða eða forsíða vefsins er aðalsíða hans og algengast er að flestar heimsóknir á vefinn séu á aðalsíðuna. Þannig má færa rök fyrir því að heimasíðan sé mikilvægasta síða vefsins, plássið á henni er það dýrmætasta sem til ráðstöfunar er og því getur myndast togstreita milli vara og þjónustu um plássið á heimasíðunni.

Vantar þig nýja heimasíðu? Þar liggur fegurðin í vefsíðugerð, því með mótun vefstefnu sem tekur á þróun og hönnun vefsins þá veistu hvenær kemur að því að útbúa nýja heimasíðu á vefinn þinn.

Undirsíða

Undirsíða eða undirsíður eru vefsíður sem eru ekki í efsta lagi í aðalvalmynd hvers vefs en þjóna ekki síður mikilvægu hlutverki en yfirsíður og heimasíða vefsins. Undirsíður geta verið flokkasíður, nokkurs konar millilending, sem leiða notandann áfram á vefsíður um þær vörur eða þjónustu sem framboðið samanstendur af og eftirspurn er eftir.

Undirsíða getur verið upplýsingasíða um vöru eða þjónustu og tilgangur hennar getur verið að fræða eða skemmta. Ef undirsíðan er jafnframt sölusíða, vörusíða þar sem þú getur sett vöruna í körfu og haldið svo áfram í kaupferli sem endar með greiðsluferli, eru nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga:

  • Lýsandi titill
  • Greinagóð vörulýsing
  • Eiginleikar og tilbrigði

Allt eru þetta veigamiklir þættir á sölusíðu. Texta hennar þarf að skrifa með leitarvélabestun í huga, ef þú vilt að viðskiptavinirnir finni þína vöru á undan vörum samkeppnisaðilanna.

Lendingarsíða

Lendingarsíða er fyrsta vefsíðan sem tekur á móti notanda þegar hann kemur á vefinn, notandinn lendir á henni. Lendingarsíður eru síðurnar sem tengdar eru við auglýsingaborða sem notandi smellir á, á öðrum vef og kemur þannig inn á þinn vef. Lendingarsíðan getur líka verið hlekkurinn sem notandinn smellir á í leitarniðurstöðu, eftir að hann slær inn leitarorð í leitarvél.

Alltof algengt er að í stafrænum auglýsingaherferðum, bæði á leitarvélum og samfélagsmiðlum, sé ekki gert ráð fyrir sérstakri lendingarsíðu fyrir herferðina. Þar liggja fjölmörg vannýtt tækifæri til að gera betur.

Efnið á lendingarsíðunni þarf að vera skýrt afmarkað og viðeigandi, þ.e. leiða notandann á réttan stað miðað við þær forsendurnar sem leiddu hann inn á vefinn.

Sjá meira um leitarvélamarkaðssetningu og samfélagsmiðla

Nokkrar nýlegar vefsíður: