Vefsíðugerð

Við hjá Pipar tökum að okkur vefsíðugerð fyrir viðskiptavini. Við gerum litla vefi, stóra vefi og öpp. Við förum með þér í gegnum þarfagreiningu, mótum með þér stafræna stefnu og vefstefnu, ásamt samfélagsmiðlastefnu.

Við finnum út hvaða hýsingar og hvaða vefumsjónarkerfi henta þínum þörfum.

Vefur

Vefurinn er samheiti yfir allar vefsíðurnar á vefnum þínum. Þær mynda þannig skipulagsheild þar sem leitast er við að endurspegla starfsemina hvort sem um er að ræða vef fyrir vörumerki, vefverslun eða stóran vef um fjölbreyttri starfsemi eins og í tilfelli sveitarfélaga eða opinberra aðila.

Vefurinn er lifandi, þetta er ekki verkefni sem tekur enda þegar vefurinn er settur í loftið. Þá fyrst er verkefnið að hefjast fyrir alvöru, þegar notendur fara að eiga samskipti á og í gegnum vefinn. Vefurinn þarf að vera hannaður með upplýsingaarkitektúr í huga og eftir vefstefnu sem skilar þeim markmiðum sem lagt er upp með. Vefinn þarf að uppfæra og endurskoða og það þarf að að vera jafn auðvelt fyrir viðskiptavini að grisja úrelt efni og að búa til nýtt vefefni, þegar þeir taka við vefnum í rekstur, eftir að við höfum smíðað hann.

 

Heimasíða

Heimasíða hefur einnig verið notað sem samheiti yfir vefinn, en heimasíða eða forsíða vefsins er aðalsíða hans og algengast er að flestar heimsóknir á vefinn séu á aðalsíðuna. Þannig má færa rök fyrir því að heimasíðan sé mikilvægasta síða vefsins, plássið á henni er það dýrmætasta sem til ráðstöfunar er og því getur myndast togstreita milli vara og þjónustu um plássið á heimasíðunni.

Vantar þig nýja heimasíðu? Þar liggur fegurðin í vefsíðugerð, því með mótun vefstefnu sem tekur á þróun og hönnun vefsins þá veistu hvenær kemur að því að útbúa nýja heimasíðu á vefinn þinn.

 

Undirsíða

Undirsíða eða undirsíður eru vefsíður sem eru ekki í efsta lagi í aðalvalmynd hvers vefs en þjóna ekki síður mikilvægu hlutverki en yfirsíður og heimasíða vefsins. Undirsíður geta verið flokkasíður, nokkurs konar millilending, sem leiða notandann áfram á vefsíður um þær vörur eða þjónustu sem framboðið samanstendur af og eftirspurn er eftir.

Undirsíða getur verið upplýsingasíða um vöru eða þjónustu og tilgangur hennar getur verið að fræða eða skemmta. Ef undirsíðan er jafnframt sölusíða, vörusíða þar sem þú getur sett vöruna í körfu og haldið svo áfram í kaupferli sem endar með greiðsluferli, eru nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga:

  • Lýsandi titill
  • Greinagóð vörulýsing
  • Eiginleikar og tilbrigði

Allt eru þetta veigamiklir þættir á sölusíðu. Texta hennar þarf að skrifa með leitarvélabestun í huga, ef þú vilt að viðskiptavinirnir finni þína vöru á undan vörum samkeppnisaðilanna.

 

Lendingarsíða

Lendingarsíða er fyrsta vefsíðan sem tekur á móti notanda þegar hann kemur á vefinn, notandinn lendir á henni. Lendingarsíður eru síðurnar sem tengdar eru við auglýsingaborða sem notandi smellir á, á öðrum vef og kemur þannig inn á þinn vef. Lendingarsíðan getur líka verið hlekkurinn sem notandinn smellir á í leitarniðurstöðu, eftir að hann slær inn leitarorð í leitarvél.

Alltof algengt er að í stafrænum auglýsingaherferðum, bæði á leitarvélum og samfélagsmiðlum, sé ekki gert ráð fyrir sérstakri lendingarsíðu fyrir herferðina. Þar liggja fjölmörg vannýtt tækifæri til að gera betur.

Efnið á lendingarsíðunni þarf að vera skýrt afmarkað og viðeigandi, þ.e. leiða notandann á réttan stað miðað við þær forsendurnar sem leiddu hann inn á vefinn.

Sjá meira um leitarvélamarkaðssetningu og samfélagsmiðla