HeForShe CannLion shortlisted 2
19/08/2019

Tilnefnd til ljónsins

PiparTBWA hefur hlotið tilnefningu til Ljónsins í Cannes fyrir HeForShe-herferð UN Women; „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“. Herferðin er tilnefnd til Glerljónsins (Glass Lion) en samkvæmt lýsingu hátíðarinnar er það flokkur almannaheillaauglýsinga sem ætlað er að „breyta heiminum með jákvæðum áhrifum á málefni eins og t.d. rótgróna kynjamismunun, ójafnvægi eða óréttlæti“.

Herferðin var valin almannaheillauglýsing ársins á Lúðrinum – íslensku auglýsingaverðlaununum, og herferð ársins á verðlaunahátíð Félags íslenskra teiknara (FÍT). Hún vakti strax gríðarlega athygli og sterk viðbrögð hér á landi þegar hún var sett í loftið í september 2018. Í myndbandi herferðarinnar les hópur karlmanna, þekktra sem óþekktra, upp sannar frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi frá ýmsum heimshornum. Þeir komast svo að því, í miðjum lestri, að þolandinn í einni frásögninni, situr á móti þeim. Sú hugrakka kona, Sigrún Sif Jóelsdóttir, var upphaflega nafnlaus en steig síðar fram í fjölmiðlum.

Verkefnið er með þeim erfiðari og viðkvæmari sem við höfum unnið og allt ferlið tók mikið á – en eftirleikurinn og viðbrögðin því gleðilegri og við erum bæði þakklát, hrærð og stolt.

Ljónið í Cannes eru stærstu og virtustu auglýsingaverðlaun heims og gjarnan lýst sem einskonar Óskarsverðlaunum auglýsingabransans. Innsendingar í keppnina skipta tugum þúsunda ár hvert og berast hvaðanæva að úr heiminum. Hátíðin fer fram dagana 14.–21. júní nk. og héðan sendum við tvo fulltrúa á staðinn.

Við viljum þakka starfsfólki UN Women fyrir samstarfið, traustið, jákvæðnina og áræðnina. Ykkar starf er ómetanlegt.

Takk fyrir okkur.

Meira á Verkin

Selma Rut Þorsteinsdóttir