jolaopnun 510264625
15/12/2021

5 hlutir að hafa í huga fyrir hátíðarnar

Alla jafna er meira en nóg að gera hjá fyrirtækjum um hátíðirnar, en þegar álagið er sem mest eykst hættan á því að verkefni gleymist eða sitji á hakanum. Það getur reynst fyrirtækjum dýrkeypt að missa boltana og þess vegna er mikilvægt að halda einbeitingu þegar mest er að gera. Hér eru örfáir punktar sem vert er að hafa í huga til að passa upp á notenda- og þjónustuupplifun viðskiptavina á háannatíma.

Opnunartími

Algeng mistök sem fyrirtæki gera yfir hátíðirnar er að gleyma að uppfæra opnunartíma sinn á samfélagsmiðlum og víðar á netinu, til dæmis á Facebook, Instagram og Google Business Profile (fyrirtækjaskráningar á Google og Google Maps), en það þurfa fyrirtæki að passa upp á sjálf.

pipar jolablogg facebook opnunartimar

Líftími jólaherferða

Markvissar jólaherferðir eru stór hluti af markaðssetningu í aðdraganda hátíðanna og tækifæri fyrir fyrirtæki til að koma sínum vörum og þjónustu á framfæri. En jólaherferðir og efni þeim tengt hefur bara ákveðinn líftíma. Það vill gerast að auglýsendur gleymi sér og herferðirnar séu lifandi umfram eðlilegan birtingartíma, sem getur verið óheppilegt. Til að koma í veg fyrir þetta má til dæmis gera eftirfarandi:

  • Í Google Ads og Facebook Ads er hægt að velja svokallað „end date“ eða lokadagsetningu herferða. Þá stöðvar kerfið herferðir á miðnætti þess dags sem er valinn.
    • Ef þú ætlar til dæmis að auglýsa fram að hádegi 24. desember, þá er hægt að:
      • Skilgreina „end date“ 24. desember, þannig að herferðin stoppi örugglega á þeim degi.
      • Breyta ad schedule í herferðinni þegar nokkrir dagar eru til stefnu og stöðva birtingar klukkan 12.00, 24. desember, sem í ár föstudagur (sjá skjáskot fyrir neðan).
  • Þegar færslur eru kostaðar (e. Boost) á Facebook er málið aðeins snúnara.
    Þá er færsla í birtingu til sömu tímasetningar og þegar hún var sett af stað, þó svo að dagsetningin sé önnur. Þannig að færsla sem er „bústað“ þann 20. desember kl. 16:35 og er stillt með lokadagsetningu 25. desember, hættir ekki að birtast sem slík á miðnætti aðfangadags, heldur kl. 16:35 á jóladag. 
pipar jolablogg google ads ad schedule

Herferðir eftir jól

Fyrirtæki eiga það til að flaska á sýnileika eftir jólin og geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Við ráðleggjum fyrirtækjum að viðhalda sýnileika yfir hátíðirnar og inn í nýja árið, með mismunandi áherslum, auðvitað. Reynsla okkar og gögn sýna að viðskiptavinir láta engan bilbug á sér finna í kaupum á vörum og þjónustu, þrátt fyrir að jólin séu gengin í garð, enda netverslanir opnar allan sólarhringinn og alltaf við hendina. Áherslurnar þurfa ekkert endilega að vera rosalega frábrugðnar hvor annarri, bara ekki hætta! Gott ráð er að undirbúa nýja herferð sem tekur við af jólaherferðinni, með sérsniðnum skilaboðum svo sýnileiki detti ekki alveg niður. Þetta má auðveldlega skipuleggja fram í tímann.

pipar jolablogg notendur og vidskiptahlutfall

Vöruuppstilling og tilboð á vefsíðum

Ekki gleyma því að fjarlægja tilboð sem renna út á aðfangadag og jafnframt að tímasetja breytingar á vefnum þannig að rétt skilaboð birtist hverju sinni. Það er mikilvægt fyrir notendaupplifun að vefsíðan sýni rétta vörur á réttu verði á hverjum tíma fyrir sig.

Tímasettar færslur á Facebook

Það er alltaf góð hugmynd að tímasetja og skipuleggja færslur fram í tímann.
Þannig heldur vörumerkið sýnileika meðal fylgjendahópsins, sem annars væri ekki til staðar. Auk þess felst í því tækifæri til að fá viðbrögð frá fylgjendum með skemmtilegum færslum, þegar samkeppnin er fjarri góðu gamni.