honnun 1816795676
07/04/2022

Góð hönnun getur breytt heiminum

Hvert er gildi góðrar hönnunar og skiptir góð hönnun yfirhöfuð einhverju máli? Getur ekki í meðallagi góð hönnun, gert nákvæmlega sama gagn og slöpp hönnun? Og hvað er góð hönnun yfirleitt? Reyndar hefur því verið haldið fram að það sé ekkert til sem beinlínis heiti góð hönnun heldur miklu fremur viðeigandi hönnun. Hönnun sem hæfir hverju tilefni fyrir sig.

Hér á stofunni höfum við oft upplifað hvernig góð hönnun hefur aukið sölu. Fyrir fáum árum voru hannaðar sérumbúðir fyrir kaffi í tilefni jóla. Engu öðru var breytt, ekki kaffinu, framstillingunni eða verðinu, aðeins útliti pokanna. Í stuttu máli þá gladdi þetta neytendur og brýndi þá til kaffidrykkju og salan svo sannarlega rauk upp.

Hönnuði ætti að taka inn snemma í framleiðsluferli á vöru eða þjónustu, helst á fyrstu stigum, því það getur komið í veg fyrir mistök sem erfitt er að leiðrétta þegar lengra er komið. Því fyrr, því betra. En hönnuðir þurfa að sama skapi visst frelsi til þess að gera það sem þeir eru þjálfaðir og menntaðir í að gera. Hönnuðir hafa nefnilega hæfileika sem við hin erum ekkert endilega með. Listfengi, gott handverk og næmi fyrir því hvað er viðeigandi eru aðalsmerki góðs hönnuðar.

Hugtakið „designer authority“ er sprottið upp úr þessum skilningi. En til þess að hönnuður fái að vinna sína vinnu þarf að ríkja gagnkvæmt traust. Hönnuðir eru sérfræðingar á sínu sviði og vita hvað fer best og auga fyrir samhengi. Snýst samt alls ekki um að það megi ekki ræða hlutina. En góð hönnun kostar jafnmikið og sú slæma en góð hönnun er svo miklu, miklu meira virði – og svo endist hún líka lengur. Góð hugmynd og hönnun getur einfaldlega breytt heiminum.