markadsdagurinn
02/02/2023

Markaðsdagarnir miklu

Frá fornu fari búum við að ýmiss konar arfleifð sem lifir glatt í nútímanum og gefur lífinu gildi. Í gamla daga var árinu bara skipt í tvennt, vetur og sumar og mánuðirnir báru nöfn eins og þorri, góa, einmánuður, harpa og þau öll. Það hefur ávallt loðað við oss manneskjur að vilja gera okkur dagamun. Fagna því að sólin hækki á lofti, nú eða lækki. Bjóða til veislu og hitta fólk. Við hvert slíkt tilefni snúast hjólin, hjá atvinnulífinu og okkur sjálfum – og það er í eðli sínu markaðslega gott.

Um þessar mundir eru býsna margir slíkir dagar sem flestir eru ættaðir frá gamla forna farinu og mörkuðu tímamót þá sem nú. Bóndadagur er upphaf þorramánaðar. Við verðum að „gleðja bóndann“. Þorrablótin sjálf eru svo hraustleg innspýting, bæði í þjóðlífið og atvinnulífið, jafnt hjá framleiðslufyrirtækjum, sláturleyfishöfum sem verslun og þjónustu. Að ekki sé minnst á félagslífið sem tilheyrir þorrablótum, sem oft er helsta skemmtun ársins í mörgum byggðakjörnum, allt frá Garðabæ til Reyðarfjarðar (eða öfugt). Hið sama gildir um konudaginn, „mundu að gleðja konuna“. Í einfaldri röð hver á eftir öðrum koma svo bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Hver og einn þessara daga gefur tilefni til auglýsingagerðar, auglýsingabirtinga, fjárútláta, fagnaðarfunda, uppdressunar o.s.frv.

Það er gott að hafa slíka daga í jafnmóttækilegu samfélagi sem þessu. Svo má ekki gleyma Valentínusardeginum sem fluttur var inn fyrir nokkrum árum og á nú sitt pláss milli bóndadags og konudags. Sá dagur hefur nákvæmlega sömu virkni. En eins og það sé ekki nóg? Hver einasti „svona dagur“, já eða átak, ef við viljum leyfa Lífshlaupinu að fljóta með, skiptir máli því hann hefur virkni langt út fyrir sjálfan sig.

Í gær og undanfarna daga hefur mátt heyra á bylgjum ljósvakans auglýsingar á borð við: „Konur, til hamingju með daginn með þakklæti fyrir öll ykkar góðu störf“, undirskrifað af hverju bæjarfélaginu á fætur öðru. Maður hrekkur við og veltir fyrir sér hvort strax sé kominn konudagur eða eitthvað? Nei, þetta eru bara útvarpsstöðvarnar að bjarga sér. 1. febrúar er nefnilega dagur kvenfélagskonunnar.