Markaðsrannsóknir

Pipar\MEDIA styðst við tölulegar upplýsingar um áhorf, hlustun, lestur og flettingar frá Gallup. Í þeim sjá birtingaráðgjafar hvaða sjónvarpsþættir eru vinsælir hjá markhópnum, hvenær dagsins hlustað er á útvarp og hver lestur dagblaða, tímarita og helstu vefmiðla er.

Með hjálp þessara upplýsinga er hægt að vinna heilsteypta birtingaáætlun sem hámarkar nýtingu auglýsingafjár viðskiptavina og fylgja því eftir að sett markmið náist. Lykilatriði er að skoða hvaða miðlasamsetning skilar mestri snertingu við markhópinn, hvenær og hversu mikið á að birta og hvaða möguleika miðlarnir bjóða upp á. Með stækkandi miðlaflóru hefur aldrei verið mikilvægara að taka réttar ákvarðanir um samsetningu miðla, tímasetningar, tíðni og hvernig auglýsingar í ólíkum miðlum vinna saman.

Til að uppfylla kröfur um bestu mögulegu birtingar styðst Pipar\MEDIA við mælingar og gagnagrunna þar sem hægt er að keyra saman gögn ólíkra miðla, markhópa og upplýsingar um neyslu- og lífsstíl. Ákvarðanir um birtingar þurfa að vera teknar út frá notkun markhóps á miðli, skörun við aðra miðla og verði í ólíkum miðlum.

 

PPM-mælingar

Portable People Meter eru mælingar á áhorfi og hlustun á ljósvakamiðla í umsjón Gallup. Hægt er að greina áhorf og hlustun eftir öllum helstu lýðfræðilegu breytum og neysluhópum (úr NLG). Vikulega berast ný gögn sem gera okkur kleift að skoða ljósvakahegðun markhópa, til hversu margra innan hópsins auglýsingarnar ná og hversu oft.

 

Vefmiðlamælingar Gallup

Vefmiðlamælingar Gallup mæla atriði eins og fjölda notenda, innlita og flettinga á hvern mældan netmiðil. Þær aðgreina innlenda og erlenda umferð, aðgreina eftir tækjum notenda (tölvum, spjaldtölvum eða snjallsímum), tegund stýrikerfis og vafra.

 

Prentmiðlamælingar

Prentmiðlamælingar eru samfelldar mælingar á dagblöðum og tímaritum yfir allt árið. Niðurstöður eru gefnar út ársfjórðungslega.

 

Auglýsingamarkaðurinn

Auglýsingamarkaðurinn mælir auglýsingar sem birtast í dagblöðum, sjónvarpi og á vef. Þessi gögn veita okkur yfirsýn á markaðinn, viðskiptavini og birtingar samkeppnisaðila.

 

Neyslu- og lífsstílskönnun Gallup (NLG)

Neyslu- og lífstílskönnun Gallup (NLG) veitir upplýsingar um markhópa, lífsstíl, lífsskeiðshópa, þróun neyslu, helstu venjur, kauphegðun og þróun viðhorfa í samfélaginu. Hægt er að skoða þróun mörg ár aftur í tímann.